Jón Viggó Gunnarsson

Ávarp framkvæmdastjóra

jon

Breytingar hafa verið mér hugleiknar undanfarin ár. Raunar svo hugleiknar að ég hef gert þær að umtalsefni mínu í öllum mínum skrifum í ársskýrslur SORPU. Og þó svo að breytingar séu það eina sem við getum gengið að sem vísu, þá verður engin breyting þar á.

Árið 2023 gekk SORPA og höfuðborgarsvæðið allt í gegnum umfangsmestu, veigamestu og ég leyfi mér að segja bestu breytingar sem gerðar hafa verið á sviði úrgangsmeðhöndlunar á síðari árum. Breytingarnar fólust aðallega í tvennu: annars vegar að bæta við nýjum úrgangsflokki við hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu - sérsöfnuðum matarleifum, og hins vegar að samræma flokkun hjá heimilum á öllu höfuðborgarsvæðinu.

Fyrri breytingin er öllum ljós og mæltist vel fyrir hjá íbúum, sem margir hafa reynslu af flokkun matarleifa eftir lengri eða skemmri dvöl utan landsteinanna eða höfuðborgarsvæðisins. Síðari breytingin, sem minna fer fyrir, skiptir miklu máli í allri upplýsingamiðlun SORPU, sem getur nú í fyrsta skipti með einföldum hætti miðlað skýrum skilaboðum um flokkun á heimilum til íbúa.

Árangur af þessum breytingum er mikill og hefur undirbúningur staðið frá ársbyrjun 2021, í nánu samstarfi við sveitarfélögin sex sem standa að SORPU. Breytingarnar gerðu SORPU kleift að hætta rekstri forvinnslulínu í móttöku- og flokkunarstöðinni í Gufunesi fyrir blandaðan úrgang á síðari hluta ársins, með tilheyrandi hagræði og sparnaði. Breytingarnar hafa líka í för með sér að SORPA getur nú í fyrsta skipti flutt út blandaðan úrgang til orkuvinnslu, sem áður innihélt mikið af matarleifum. Þær skila einnig því að nú getur SORPA afhent öllum sem vilja moltu úr GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU. Og síðast en ekki síst dregur SORPA, með dyggum stuðningi íbúa á höfuðborgarsvæðinu, úr losun gróðurhúsalofttegunda sem nemur um 20.000 tonnum af koltvísýringi á ári hverju með rekstri GAJU.

Þessi árangur hefur hvorki farið fram hjá almenningi eða stjórnvöldum, sem veittu SORPU Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á árinu. Í rökstuðningi dómnefndar segir að SORPA hafi gengið mun lengra en hægt sé að ætlast til af fyrirtækinu miðað við kjarnastarfsemi og hafi tekist að breyta hegðun almennings á skömmum tíma, auk þess að virkja fólk til þátttöku með átaki í fræðslu og markaðsherferðum. SORPA á þennan árangur alls ekki ein, því 250.000 íbúar höfuðborgarsvæðisins gerðu þessa breytingu mögulega.

Betri Góður hirðir
Sérsöfnun matarleifa var þó alls ekki það eina sem SORPA tók sér fyrir hendur á árinu. Snemma á árinu lokaði Góði hirðirinn í síðasta skipti verslununum við Fellsmúla og Hverfisgötu, og runnu þær saman í eitt í nýrri og margfalt stærri verslun við Köllunarklettsveg 1 þann 1. apríl, þangað sem höfuðstöðvar SORPU fluttu skömmu síðar.

Með stækkun Góða hirðisins hefur SORPU tekist að auka til muna endurnot, sem eru það besta sem hægt er að gera við úrgang eftir að SORPA hefur tekið við honum. Árangur Góða hirðisins og Efnismiðlunar Góða hirðisins skipti einnig verulegu máli við ákvörðun dómnefndar um að veita SORPU áðurnefnd umhverfisverðlaun.

Orkuvinnsla úr blönduðum úrgangi og bann við urðun á lífrænum úrgangi
Urðun er, samkvæmt forgangsröðun laga um meðhöndlun úrgangs, það versta sem þú getur gert við úrgang. SORPA hefur því að leiðarljósi að draga eins mikið úr urðun og kostur er. Urðun er engu að síður óumflýjanlegur hluti úrgangsmeðhöndlunar. Með þetta tvennt í huga ákváðu eigendur SORPU að heimila áframhaldandi rekstur urðunarstaðarins í Álfsnesi, með ströngum skilyrðum. Skilyrði þessi snúa fyrst og fremst að urðun á lífrænum og lyktarsterkum úrgangi, sem hefur undanfarin ár valdið nágrönnum urðunarstaðarins nokkru ónæði.

Urðun á lífrænum úrgangi er þess utan fyrirferðarmikill sökudólgur í losun gróðurhúsalofttegunda á höfuðborgarsvæðinu. Með því að hætta að urða lífrænan úrgang mun SORPA á næstu 10-15 árum draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um ríflega 70.000 tonn af koltvísýringsígildi, sem jafngildir því að taka 35.000 fólksbíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti af götum höfuðborgarsvæðisins. SORPA er með þessu að stimpla sig inn sem einn af lykilaðilum landsins í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Breytingar eru, eins og ég hóf þennan pistil á, eini fastinn í tilverunni. Árið 2023 var, rétt eins og önnur ár, ár mikilla breytinga hjá SORPU. Og ég veit að þegar ég horfi yfir árið 2024 mun það sama verða uppi á teningnum: meiri breytingar til hins betra.

Arsskyrsla_-_avarp.original-klippt