Starfsemi

SORPA bs. er rekin með umhverfi, samfélag og hagkvæmni að leiðarljósi. Heildarmagn úrgangs sem félagið tók við á árinu var 156 þúsund tonn.

GAJA -

Gas- og jarðgerðarstöð

GAJA endurvinnur matarleifar sem hafa safnast frá heimilum og fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu.
Móttekinn úrgangur
29.751 tonn
Framleiðsla á metani
845.772 Nm3
Molta, ráðstafað í Álfsnesi
785 tonn

Hlutverk GAJU er að breyta matarleifunum í metangas og moltu og koma um leið í veg fyrir mikla losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið. Sérsöfnun á matarleifum hófst á höfuðborgarsvæðinu um mitt árið og seinni hluta árs hætti GAJA alfarið að taka við forflokkuðum heimilisúrgangi til gasgerðar. Skilyrði fyrir því að framleiða moltu voru því loks til staðar seinni part ársins og hófst þá umsóknarferli um leyfi frá MAST til að mega markaðssetja moltuna. Framleiðsla metans gekk vel á árinu en hreinna hráefni til moltuvinnslunnar skilar einnig hlutfallslega meira magni af gasi.

Góði hirðirinn -

Nytjamarkaður

Góði hirðirinn er nytjamarkaður SORPU.
Fjöldi seldra muna
838.664
Magn í tonnum
2.113
Selt til endurnotkunar
62 %

Góði hirðirinn flutti í nýtt og stærra húsnæði að Köllunarklettsvegi 1 í upphafi árs 2023. Húsnæðið er 2000 m2 að stærð og skapar aukna möguleika á að finna notuðum hlutum nýtt heimili og þar með lengja líftíma þeirra í takt við tilgang og markmið hringrásarhagkerfisins. Flutningarnir hafa skilað 53% aukningu í endurnotum milli ára.

Efnismiðlun -

Efnismiðlun Góða hirðisins

Efnismiðlun Góða hirðisins er markaður fyrir notuð byggingarefni og ýmsar vörur sem geta nýst til framkvæmda og listsköpunar.
Fjöldi seldra vara
24.057
Áætlað magn
189 tonn

Tilgangur markaðarins er að koma efni í endurnýtingu- eða notkun áður en það fer til endurvinnslu en það er mikilvægt til að nýta auðlindir okkar sem best. Á markaðinum er boðið upp á efni eins og timbur, timburhluti, hurðar, glugga, innréttingar, hellur, flísar, trjáboli, vaska, parket, dekk, reiðhjól, vörubretti og brúsa svo fátt eitt sé nefnt. Hagnaður sem kann að verða af sölu efna rennur til góðra málefna

Endurvinnslustöðvar

SORPA rekur sex endurvinnslustöðvar sem taka á móti flokkuðum úrgangi. SORPA rekur líka grenndarstöðvar á um 90 stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
Móttekið magn
48.517 tonn
Hlutfall til endurnýtingar
84 %
Breyting milli ára
2,8 %

Árið 2023 hóf SORPA sérsöfnun á plasti á endurvinnslustöðvum í fjórum flokkum: plastumbúðum, plastfilmu, hörðu plasti og frauðplasti. Þessi flokkun hefur í för með sér betri endurvinnslu og jókst heildarmagn plasts sem SORPA sendir í endurvinnslu um rúm 80%; úr tæplega 1.700 tonnum í 3.078 tonn.

Gufunes -

Móttöku- og flokkunarstöð

Móttöku- og flokkunarstöðin er kjarninn í starfsemi SORPU.
Móttekið magn
77.137 tonn
Sent erlendis til endurvinnslu
12.337 tonn
Breyting milli ára
-13,3 %

Hjá móttöku og flokkunarstöð millilendir næstum því allur úrgangur sem kemur til SORPU, áður en hann er sendur í réttan farveg. Í lok árs hófst útflutningur á blönduðum úrgangi til orkuvinnslu og urðun á blönduðum úrgangi var hætt. Orkuvinnsla er mun skárri leið til að meðhöndla rusl en að urða það. Með þessu færum við rúmlega 40.000 tonn af úrgangi skör ofar í meðhöndlun, því urðun er það versta sem þú getur gert við rusl og er orkuvinnsla einu skrefi ofar og flokkast sem endurnýting.

Álfsnes -

Urðunarstaður

SORPA rekur urðunarstað í Álfsnesi.
Móttekið magn
135.244 tonn
Breyting milli ára
-12,3 %
Heildarmagn metans til nýtingar
2.176.119 Nm3

Í lok ársins hætti urðunarstaðurinn að taka við lífrænum og blönduðum úrgangi og er stefnt að því að draga úr urðun um að minnsta kosti 70% árið 2024. Við það að hætta að urða blandað rusl og lífrænan úrgang í Álfsnesi má einnig gera ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstað SORPU dragist saman um 80% á næstu 10 til 15 árum.